Sóknarmaðurinn Andri Rúnar Bjarnason er genginn til liðs við Val eftir að hafa sagt skilið við ÍBV í upphafi ársins.
Samningurinn er til eins árs, með möguleika á framlengingu.
Andri Rúnar, sem er 32 ára gamall, hefur komið víða við á ferlinum þar sem hann hefur leikið með Helsingborg, Kaiserslautern og Esbjerg sem atvinnumaður og Víkingi úr Reykjavík og Grindavík í efstu deild hér á landi.
Ferill hans hófst þó á Vestfjörðum þar sem Bolvíkingurinn lék með BÍ/Bolungarvík út árið 2014.
Andri Rúnar skoraði 19 mörk í 22 deildarleikjum með Grindavík sumarið 2017 og er því handhafi markamets efstu deildar á Íslandi ásamt nokkrum leikmönnum til viðbótar.
Hann á að baki fimm A-landsleiki þar sem hann hefur skorað eitt mark.