Skoraði tvö í fyrsta landsleiknum

Amanda Andaradóttir og Ólöf Sigríður fagna í dag.
Amanda Andaradóttir og Ólöf Sigríður fagna í dag. Ljósmynd/KSÍ

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir reyndist hetja íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið mætti Skotlandi á alþjóðlega mótinu Pinatar Cup á Spáni í dag.

Leiknum lauk með sigri íslenska liðsins, 2:0, en Ólöf Sigríður skoraði bæði mörk Íslands í sínum fyrsta A-landsleik.

Skotar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu hvert dauðafærið á fætur öðru til þess að komast yfir í leiknum.

Sandra Sigurðardóttir stóð vaktina vel í marki Íslands og varði oft mjög vel og þá gekk sóknarmönnum Skotlands líka illa að hitta markið í sínum bestu færum.

Ólöf Sigríður kom íslenska liðinu svo yfir strax á 50. mínútu með skoti af vítateigslínunni en Agla María Albertsdóttir átti þá fyrirgjöf frá hægri.

Ólöf Sigríður tók vel á móti boltanum, lagði hann fyrir sig, og átti þrumuskot sem fór af  varnarmönnum Skota og þaðan í netið.

Hún bætti svo við öðru marki sínu og íslenska liðsins, mínútu síðar, og aftur var það Agla María sem vann boltann á vallarhelmingi Skota og sendi hann á Ólöfu Sigríði.

Framherjinn sendi boltann til baka á Alexöndru Jóhannsdóttur sem sendi strax aftur á Ólöfu Sigríði sem lagði boltann fyrir sig, utarlega í teignum, og skrúfaði hann svo upp í samskeytin fjær. Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og Ísland fagnaði sigri.

Næsti leikur Íslands á mótinu er gegn Wales þann 18. febrúar og liðið mætir svo Filippseyjum þann 21. febrúar.

Skotland 0:2 Ísland opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert