Víkingur lagði Stjörnuna

Nikolaj Hansen og Helgi Guðjónsson skoruðu mörk Víkings gegn Stjörnunni …
Nikolaj Hansen og Helgi Guðjónsson skoruðu mörk Víkings gegn Stjörnunni í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Víkingur úr Reykjavík hafði naumlega betur gegn Stjörnunni, 2:1, þegar liðin áttust við í riðli 3 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á Víkingsvelli í kvöld.

Nikolaj Hansen kom heimamönnum í Víkingi á bragðið eftir einungis þriggja mínútna leik.

Í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Ísak Andri Sigurgeirsson metin fyrir Stjörnuna.

Helgi Guðjónsson skoraði svo sigurmark Víkings níu mínútum fyrir leikslok.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, fékk beint rautt spjald á fjórðu mínútu uppbótartíma og Björn Berg Bryde fékk svo sitt annað gula spjald og þar með rautt á áttundu mínútu uppbótartímans.

Eftir sigurinn er Víkingur með fullt hús stiga, 6, á toppi riðils 3. Stjarnan er í öðru sæti með 3 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert