Aftur frestað hjá Kórdrengjum

Kórdrengir fagna marki síðastliðið sumar.
Kórdrengir fagna marki síðastliðið sumar. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

Leik Kórdrengja og ÍBV í riðli 2 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu, sem ráðgert var að færi fram á Domusnova-vellinum í Breiðholti á morgun, hefur verið frestað.

Þetta er annar leikurinn í röð sem Knattspyrnusamband Íslands frestar hjá Kórdrengjum í mótinu.

Leik liðsins gegn Breiðabliki fyrir sléttri viku var upphaflega frestað en Blikum var svo daginn eftir dæmdur 3:0-sigur, með þeim skýringum að Kórdrengir hafi ekki mætt til leiks í Fífuna.

Kórdrengir eru skráðir til keppni í Lengjubikarnum og sömuleiðis næstefstu deild, Lengjudeildinni, þar sem liðið hefur leikið undanfarin tvö ár.

Þrátt fyrir það er útlit fyrir að félagið geti ekki haldið úti liði í ár.

FH tekur Kórdrengi ekki yfir

Viðræður höfðu verið í gangi á milli FH og Kórdrengja um að Hafnarfjarðarliðið tæki það yfir og myndi nota sem nokkurs konar varalið þar sem efnilegir leikmenn FH fengju að spreyta sig.

Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, sagði í samtali við 433.is í dag að viðræður hefðu sannarlega átt sér stað en að þær hefðu siglt í strand.

„Við vorum að skoða þennan möguleika og töluðum við Kórdrengi og forráðamenn þeirra, þetta gekk bara ekki upp,“ sagði Davíð Þór meðal annars við 433.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert