Blikar komu fram hefndum gegn FH

Breiðablik hafði betur gegn FH í kvöld.
Breiðablik hafði betur gegn FH í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik vann 3:1-sigur á FH í riðli 2 í Lengjubikar karla í fótbolta í kvöld. FH vann 4:0-stórsigur á Breiðabliki í úrslitum Þungavigtarbikarsins á dögunum, en Breiðablik kom fram hefndum í kvöld.

Fyrirliðinn Höskuldur Gunnlaugsson kom Breiðabliki yfir á 9. mínútu með marki úr víti og Stefán Ingi Sigurðarson tvöfaldaði forskotið á 21. mínútu.

Vuk Óskar Dimitrijevic minnkaði muninn fyrir FH á 35. mínútu, en aðeins sjö mínútum síðar skoraði Björn Daníel Sverrisson sjálfsmark og var ekkert skorað í seinni hálfleik.

Í sama riðli vann Selfoss 1:0-sigur á Leikni úr Reykjavík á heimavelli sínum. Spánverjinn Gonzalo Zamorano skoraði sigurmarkið á 28. mínútu. Bæði lið leika í 1. deild á næstu leiktíð, eftir að Leiknir féll úr Bestu deildinni í fyrra.

Breiðablik er með níu stig á toppi riðilsins og FH í öðru með þrjú. ÍBV, Leiknir og Selfoss eru öll án stiga og Kórdrengir hafa ekki spilað leik, en mikil óvissa ríkir um framtíð félagsins.

Í öðrum leikjum kvöldsins vann Njarðvík 4:0-sigur á Gróttu í riðli 3 þar sem þeir Omar Diouck og Magnús Magnússon skoruðu tvö mörk hvor í Nettóhöllinni. 

Fram vann 4:3-sigur á Aftureldingu í Mosfellsbæ. Guðmundur Magnússon skoraði tvö mörk fyrir Fram og þeir Magnús Þórðarson og Delphin Tshiembe eitt hvor. Ásgeir Marteinsson, Ríkharður Smári Gröndal og Breki Freyr Gíslason gerðu mörk Aftureldingar. 

Þá vann Keflavík 2:1-sigur á Þrótti úr Reykjavík í Laugardalnum. Fréttin verður uppfærð með markaskorurum þess leiks þegar þeir berast. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka