„Persónulega finnst mér of margir ungir leikmenn fara of snemma út,“ sagði Kári Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi úr Reykjavík, í Dagmálum.
Kári, sem er fertugur, starfar í dag sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi en hann hélt úr í atvinnumennsku árið 2004, þá 22 ára gamall, þegar hann samdi við Djurgården í Svíþjóð.
„Ef þú kemst í meistaraflokkinn hérna heima, 16 eða 17 ára, þá ferðu út á endanum,“ sagði Kári.
„Ef þú átt eftir að taka einhver skref, í umhverfi eins og hjá okkur, þá berum við bara hag þinn það mikið fyrir brjósti að þú ert að fara bæta þig alveg jafn mikið hjá okkur eins og til dæmis hjá Köbenhavn í Danmörku.
Okkur þykir vænt um þessa stráka og viljum hjálpa þeim en úti þá er ekki verið að leggja einhverja aukaorku í þig og ef þú meikar það ekki þá kemur þú heim. Það er ekki verið að leggja einhverja aukaorku í þig þó þú komir frá Íslandi,“ sagði Kári meðal annars.
Viðtalið við Kára í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.