Íslenska liðið slappt í markalausum leik

Íslenska landsliðið hefur átt betri leiki en í kvöld.
Íslenska landsliðið hefur átt betri leiki en í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu gerði markalaust jafntefli við Wales í ann­arri um­ferð Pinatar Cup móts­ins á Spáni í kvöld.

Ísland vann Skot­land 2:0 og Wales vann Fil­ipps­eyj­ar 1:0 í fyrstu um­ferð móts­ins á miðviku­dag­inn.

Leikurinn var afar rólegur framan af og aðal tækifæri liðanna komu í hornspyrnum. Á 20. mínútu sendu Walesverjar senda boltann til baka á markmanninn Laura O'Sullivan sem lét klobba sig og boltinn rúllaði alla leið að marklínunni en O'Sullivan bjargaði fyrir rest.

Wales fékk betri færi er leið á hálfleikinn en á 34. mínútu kom Ceri Holland sér í dauðafæri en setti boltann yfir markið. Liðsfélagi hennar Rachel Rowe fékk svo fínasta færi átta mínútum síðar en Cecilía Rán Rúnarsdóttir sá við henni. 

Allt í allt var fyrri hálfleikur íslenska liðsins heldur lélegur og því margt að bæta í seinni hálfleik. 

Ísland náði sér þó ekki upp í seinni hálfleiknum en á 50. mínútu kom Ceri Holland sér aftur í ansi gott færi, en setti boltann yfir á ný. 

Íslenska liðinu tókst illa að spila á milli sín og skapa sér færi mest allan leikinn. Helst má nefna skot Sveindísar Jane Jónsdóttur utan teigs sem fór framhjá og færi hennar er hún slapp í gegn í uppbótartíma en O'Sullivan sá við henni.

Er leið á seinni hálfleikinn hélt Ísland liði Wales vel frá sínu marki og lék boltanum betur á milli sín. Færin voru þó fá og markalaust jafntefli niðurstaðan. 

Síðasti leikur íslenska liðsins er gegn Filippseyjum 21. febrúar. Ísland og Wales eru með 4 stig hvort, Skotland vann Filippseyjar 2:0 í dag og er með 3 stig en Filippseyjar eru án stiga. Ísland á því góða sigurmöguleika á mótinu.

Wales 0:0 Ísland opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við. Þrjár mínútur til stefnu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert