Kórdrengir ekki með í sumar - Ægir í 1. deild

Kórdrengir taka ekki þátt í mótum á vegum KSÍ í …
Kórdrengir taka ekki þátt í mótum á vegum KSÍ í sumar. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, hefur tekið ákvörðun um að taka þátttökutilkynningu Kórdrengja ekki til greina og mun liðið því ekki taka neinn þátt í mótum komandi sumars.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ.

Þar segir að mótanefnd KSÍ hafi í gær fundað um stöðu Kórdrengja og knattspyrnumóta sumarsins 2023 og stjórn KSÍ svo fundað um málið í dag, laugardag.

„Stjórn KSÍ hefur ákveðið að taka þátttökutilkynningu Kórdrengja ekki til greina og byggir ákvörðun sína á grein 13.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót. Kórdrengir munu því ekki taka þátt í mótum sumarsins.

Hér er um að ræða Lengjudeild karla og Mjólkurbikar karla. Ljóst er að þessi ákvörðun hefur áhrif í öllum deildum Íslandsmóts meistaraflokks karla, nema í Bestu deild. Mótanefnd KSÍ vinnur nú hörðum höndum að því að gera nauðsynlegar breytingar á mótum,“ segir í tilkynningunni.

Vegna brotthvarfs Kórdrengja úr mótum sumarsins hefur stjórn KSÍ samþykkt breytingar á deildarskipan Íslandsmóts meistaraflokks karla árið 2023.

Þær breytingar eru sem hér segir:

1. deild karla:

Ægir frá Þorlákshöfn flyst upp í 1. deild karla, Lengjudeildina, í stað Kórdrengja. Ægir var í 3. sæti 2. deildar karla 2022 en félagið hefur aldrei áður leikið í 1. deild.

2. deild karla:

KFG úr Garðabæ flyst upp í 2. deild karla í stað Ægis. KFG var í 3. sæti 3. deildar karla 2022.

3. deild karla:

Hvíti riddarinn úr Mosfellsbæ flyst í 3. deild karla í stað KFG. Hvíti riddarinn var í 4. sæti 4. deildar karla 2022. Ýmir úr Kópavogi sem endaði í 3. sæti 4. deildar hefur nú þegar færst upp í 3. deild í stað Einherja sem dró sig úr keppni í 3. deild.

4. deild karla:

Hamar úr Hveragerði flyst upp í 4. deild karla í stað Hvíta riddarans. Hamar var með 2. bestan árangur liða (meðal stigaskor) í 3. sæti riðlakeppni 4. deildar karla 2022.

5. deild karla:

Álafoss úr Mosfellsbæ flyst upp í 5. deild karla í stað Hamars. Vegna breytinga á þátttöku félaga í 5. deild verður riðlaskipting deildarinnar endurskoðuð. Nánar verður tilkynnt um það síðar.

Utandeild karla:

Vegna breytinga á þátttöku félaga verður opnað að nýju fyrir skráningar í utandeild. Frekari upplýsingar mun KSÍ birta eins fljótt og kostur er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert