Sigurður Bjartur með þrennu í stórsigri KR

Sigurður Bjartur Hallsson skoraði þrennu fyrir KR í dag.
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði þrennu fyrir KR í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

KR vann gífurlega öruggan sigur á HK, 6:1, þegar liðin áttust við í riðli 1 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu á gervigrasinu í Vesturbæ í dag. Sigurður Bjartur Hallsson skoraði þrennu fyrir Vesturbæjarliðið.

Ægir Jarl Jónasson kom heimamönnum á bragðið strax á níundu mínútu.

Theodór Elmar Bjarnason tvöfaldaði forystuna á 26. mínútu og var staðan 2:0 í leikhléi.

Strax í upphafi síðari hálfleiks minnkaði Brynjar Snær Pálsson muninn fyrir HK en eftir tæplega klukkutíma leik, á 58. mínútu, kom Sigurður Bjartur KR-ingum aftur tveimur mörkum yfir.

Fjórum mínútum síðar skoraði Sigurður Bjartur annað mark sitt og fjórða mark KR.

Á 74. mínútu fullkomnaði hann svo þrennu sína með fimmta marki Vesturbæinga.

Þremur mínútum síðar bætti Aron Þórður Albertsson við sjötta markinu.

KR lét þá gott heita og niðurstaðan afar þægilegur fimm marka sigur.

KR fór með sigrinum upp í annað sæti riðils 1 þar sem liðið er með 3 stig að loknum tveimur leikjum, líkt og ÍA í þriðja sæti og HK í því fjórða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert