Fimm marka sigur og Ísland vann mótið

Amanda Andradóttir kom Íslandi yfir á 20. mínútu.
Amanda Andradóttir kom Íslandi yfir á 20. mínútu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland stóð uppi sem sigurvegari á Pinatar-mótinu í knattspyrnu í kvöld eftir sannfærandi sigur á Filippseyjum í lokaleiknum, 5:0.

Ísland fékk því sjö stig á mótinu, Wales fékk fimm stig, Skotland fjögur en Filippseyjar ráku lestina án stiga. Íslenska liðið fékk ekki á sig mark á mótinu og var með markatöluna 7:0.

Íslenska liðið byrjaði af mun meiri krafti í kvöld heldur en í hinum tveimur leikjunum. Leikmenn Íslands héldu boltanum vel á milli sín og sköpuðu góðar sóknaraðgerðir.

Á 12. mínútu leiksins átti fyrirliði dagsins Dagný Brynjarsdóttir hörkuskot, langt utan teigs, beint í þverslána.

Átta mínútum síðar fékk Amanda Andradóttir boltann á svipuðum stað og Dagný, skaut og boltinn hafnaði í netinu vinstra megin, 1:0, og glæsilegt fyrsta landsliðsmark Amöndu var staðreynd.

Íslenska liðið hélt áfram að pressa það filippseyska vel og vann oft boltann í hættulegum stöðum vegna pressunnar. Íslensku leikmennirnir náðu þó ekki að nýta færin það sem eftir var af fyrri hálfleik og fóru því aðeins einu marki yfir til búningsklefa, 1:0.

Það breyttist fljótlega í seinni hálfleiknum. Amanda skoraði sitt annað mark á 51. mínútu. Agla María Albertsdóttir var snögg að taka aukaspyrnu á miðjum vellinum, sendi boltann á Amöndu sem brunaði inn í vítateiginn og skoraði, 2:0.

Selma Sól Magnúsdóttir kom Íslandi í 3:0 á 71. mínútu. Hún og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir léku skemmtilega saman við vítateiginn og Selma skaut föstu skoti með jörðu í vinstra hornið niðri.

Hlín Eiríksdóttir bætti við fjórða markinu á 80. mínútu. Karólína Lea komst inn í sendingu við vítateig Filippseyja, lék inn í teiginn og renndi boltanum á Hlín sem skoraði auðveldlega, 4:0.

Íslenska liðið átti hverja sóknina á fætur annarri á lokakafla leiksins og í uppbótartímanum átti Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir langa fyrirgjöf frá hægri, Alexandra Jóhannsdóttir var fyrst í boltann og skallaði hann í netið, 5:0.

Filippseyjar tóku miðju og síðan var leikurinn flautaður af.

Ísland 5:0 Filippseyjar opna loka
90. mín. Sveindís Jane brunar inn í vítateiginn hægra megin en í stað þess að skjóta úr góðu færi rennir hún boltanum fyrir markið og ekkert verður úr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert