Finnski knattspyrnumaðurinn Akseli Kalermo hefur skrifað undir samning við Þór og mun leika með liðinu á komandi tímabili.
Kalermo er 26 ára gamall og lék síðast í hálft þriðja tímabil með Riteriai í efstu deild Litháens. Þar á undan var hann með Brattvåg í norsku annarri deildinni.
Ítalska félagið Atalanta keypti Kalermo þegar hann var kornungur, en hann lék aldrei með aðalliði félagsins. Hann á leiki að baki með yngri landsliðum þjóðar sinnar.
„Axel er stór og sterkur varnarmaður og er góður á boltanum. Hann spilaði á sínum unglingsárum með Brommapojkarna í Svíþjóð og Atalanta á Ítalíu og er mjög vel skólaður leikmaður.
Hann ætti að styrkja liðið mjög mikið,“ er haft eftir Þorláki Árnasyni, þjálfara Þórs, í frétt á heimasíðu félagsins.