„Tilfinningin er góð. Mér fannst við laga margt sem við þurftum að laga eftir fyrstu tvo leikina og það var stígandi í þessu hjá okkur,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í viðtali sem birtist á Twitter-síðu KSÍ.
Ísland vann 5:0-sigur á Filippseyjum á Pinatar Cup á Spáni í gær og tryggði sér í leiðinni sigur á mótinu. Ísland hafði áður unnið 2:0-sigur á Skotlandi og gert markalaust jafntefli við Wales.
„Þetta lið hefur ekki verið að fá mörg mörk á sig og það var gott að skora fimm mörk. Við höldum líka hreinu allt mótið, sem er jákvætt. Við sköpuðum svo fleiri færi í dag og kláruðum þau,“ sagði Dagný.
Hún viðurkennir að spilamennska Íslands hafi ekki verið upp á það besta gegn Skotlandi og Wales, en það hafi sína skýringu.
„Auðvitað vildum við spila betur á móti Wales og Skotlandi, það voru ekki okkar sterkustu leikir. En margir leikmenn hjá okkur eru í vetrardeildum og því ekki við því að búast að þetta yrðu okkar bestu leikir. Við höfum ekki spilað saman síðan í október.“
Dagný er heilt yfir sátt við rúmlega vikudvöl á Spáni. „Þetta er búið að vera flott og við erum búnar að þjappa hópinn saman. Svo eru nýliðar eins og Diljá og Olla sem hafa fengið að kynnast hópnum vel.
Síðasti leikur fyrir mótið var gegn Portúgal og það var erfitt að rífa sig upp úr því. Það var gott að koma saman núna og byrja upp á nýtt,“ sagði Dagný.