Fór veik af velli gegn Filippseyjum

Þorsteinn Halldórsson var kátur í leikslok.
Þorsteinn Halldórsson var kátur í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland vann öruggan 5:0-sigur á Filippseyjum í lokaleik liðanna á Pinatar Cup á Spáni í gærkvöldi. Með sigrinum tryggði Ísland sér sigur á mótinu. Landsliðsþjálfarinn Þorsteinn Halldórsson var sáttur í leikslok.

„Við vorum góð í þessum leik, frá byrjun og allan leikinn. Við vorum að skapa og vorum lífleg með boltann og vorum öguð í vörninni. Heilt yfir var þetta fagmannlegur leikur,“ sagði Þorsteinn í viðtali sem KSÍ birti á Twitter.

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir átti að vera í byrjunarliðinu, en hún meiddist og var því ekki með. Þá veiktist Hafrún Rakel Halldórsdóttir og varð að fara af velli í fyrri hálfleik.  

„Olla fékk högg í upphitun og Hafrúnu var illt í höfðinu, það væri eins og hún væri að fá mígreniskast,“ útskýrði Þorsteinn.

Hann var ánægður með mótið í heild og sérstaklega leikinn í gærkvöldi.

„Já, það er stígandi í þessu allan tímann og jákvæðir hlutir að gerast. Það er það sem maður horfir í. Þetta er í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem Filippseyjar fá á sig fimm mörk. Við erum sátt við að skapa svona mikið og skora svona mörg mörk,“ sagði Þorsteinn.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert