Mbl.is hlaut fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ

Ómar Smárason frá KSÍ, Bjarni Helgason og Hallur Már Hallsson.
Ómar Smárason frá KSÍ, Bjarni Helgason og Hallur Már Hallsson. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Helgason, Hallur Már Hallsson og mbl.is hlutu í dag fjölmiðlaviðurkenningu Knattspyrnusambands Íslands fyrir vefþættina Dætur Íslands.

Þættirnir, sem voru alls tíu talsins, voru hluti af upphitun mbl.is og Morgunblaðsins fyrir lokakeppni Evrópumótsins sem fram fór á Englandi í sumar.

Bjarni og Hallur heimsóttu níu leikmenn íslenska liðsins, víðs vegar um Evrópu, þar sem þeir fengu að skyggnast á bak við tjöldin hjá þeim og skoða aðstæður hjá félagsliðum þeirra.

Þá var Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, einnig heimsóttur í lokaþættinum þar sem hann ræddi meðal annars undirbúning landsliðsins fyrir lokakeppnina.

Um var að ræða opna og áhugaverða þætti sem sýndu viðmælendurna í nýju og skemmtilegu ljósi og gaf stuðningsmönnum tækifæri til að kynnast nýjum hliðum á stjörnum íslenska liðsins,“ segir meðal annars í fréttatilkynningu KSÍ.

Þættina tíu má nálgast á heimasíðu þáttanna, mbl.is/daeturislands, eða með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert