Forráðamenn Víkings úr Reykjavík höfnuðu á dögunum tilboði frá Lettlandi í knattspyrnumanninn Loga Tómasson.
Það er fótbolti.net sem greinir frá þessu en Logi, sem er 22 ára gamall, er uppalinn í Fossvoginum.
Tilboðið kom frá Riga en liðið endaði í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð, fjórum stigum frá toppliði Valmiera. Axel Óskar Andrésson lék með Riga árið 2021 áður en hann gekk til liðs við Örebro í Svíþjóð í mars á síðasta ári.
Alls á Logi að baki 72 leiki í efstu deild með Víkingum og FH en hann varð Íslandsmeistari með Víkingum árið 2021 og þá hefur hann þrívegis orðið bikarmeistari með liðinu, árin 2019, 2021 og 2022.