Ársþing Knattspyrnusambands Íslands er haldið í 77. sinn í dag. Þingið fer fram á Ísafirði og hefur veðrið sett strik í reikninginn.
Aðeins 70 fulltrúar af þeim 138 sem eiga sæti á þinginu frá þeim 62 félögum sem eiga sæti voru mættir þegar hlé voru gerð á þingstörfum í hádeginu.
Þingið er því naumlega löglegt.
Enginn risamál eru á dagskrá þingsins en sjálfkjörið er í allar stöður innan stjórnar KSÍ.
Fulltrúar 34 félaga eru mættir á þingið en 28 félög eru sem stendur fulltrúalaus.
Ófærð í lofti í morgun hafði mest að segja en rétt fyrir hádegishlé var tilkynnt um að farið væri að fljúga á ný svo mögulega rætist frekar úr mætingu þegar líður á daginn.
Meðal þeirra 28 félaga sem ekki eiga fulltrúa á þinginu í augnablikinu eru Dalvík/Reynir, Völsungur, Haukar, Grótta, Grindavík, Leiknir R, Fjölnir, Njarðvík og Fram.
Heyrst hefur þó að að fulltrúar frá Fram séu væntanlegir í hús.