Stjarnan hafði betur gegn Njarðvík, 3:1, er liðin mættust í Lengjubikar karla í fótbolta í dag. Leikið var á Samsung-vellinum í Garðabæ.
Guðmundur Baldvin Nökkvason kom Stjörnunni yfir á 53. mínútu en Bergþór Ingi Smárason jafnaði á 83. mínútu.
Eftir það var komið að Hilmari Árna Halldórssyni, en hann tryggði Stjörnunni sigurinn með tveimur mörkum í uppbótartíma. Hafði hann komið inn á sem varamaður á 55. mínútu.
Mörkin eru þau fyrstu sem hann skorar frá því hann sleit krossband á undirbúningstímabilinu á síðustu leiktíð, en hann lék ekkert á Íslandsmótinu á síðasta ári vegna meiðslanna.
Grótta og Afturelding mættust einnig í riðli 3 á Nesinu og skildu jöfn, 1:1. Patrik Orri Pétursson kom Gróttu yfir á 73. mínútu en Bjarni Páll Linnet Runólfsson jafnaði í uppbótartíma.
Víkingur úr Reykjavík er í toppsæti riðilsins með níu stig, Stjarnan í öðru með sjö, Fram í þriðja með fjögur, Njarðvík í fjórða með þrjú, Grótta í fimmta með þrjú og loks Afturelding með eitt.
Í riðli 2 hafði FH betur gegn Leikni úr Reykjavík í Skessunni. Ólafur Guðmundsson, Úlfur Ágúst Björnsson, Kjartan Henry Finnbogason og Davíð Snær Jóhannsson skoruðu mörk FH-inga. FH er í öðru sæti riðilsins með sex stig og Leiknir í fimmta með þrjú.