KR-ingar skoruðu sex mörk í öðrum leik sínum í röð í deildabikar karla í fótbolta, Lengjubikarnum, þegar þeir tóku á móti Vestra á gervigrasvelli sínum í Vesturbænum í dag.
KR vann HK 6:1 á sama stað á dögunum og sömu lokatölur urðu í dag. Finnur Tómas Pálmason, Aron Þórður Albertsson og Jóhannes Kristinn Bjarnason skoruðu fyrir KR í fyrri hálfleik en á lokamínútum leiksins skoraði Kristján Flóki Finnbogason tvö mörk og Kennie Chopart eitt.
Valur er með 9 stig í fyrsta riðli keppninnar, KR og HK eru með 6 stig, ÍA er með 3 stig en Grindavík og Vestri eru enn án stiga.