Knattspyrnumarkvörðurinn Chanté Sandiford sem hefur leikið hér á landi um árabil, hefur lagt hanskana á hilluna og hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari hjá Grindavík, sem leikur í 1. deild kvenna.
Chanté er 33 ára gömul og hefur varið mark Stjörnunnar undanfarin tvö ár en hún lék áður með Selfossi og Haukum, inn á milli með Avaldsnes í Noregi, og áður með m.a. Zorkij í Rússlandi.
Hún á að baki 113 leiki í tveimur efstu deildunum hér á landi og Chanté lék fyrir nokkrum árum fimm leiki með landsliði Guyana, heimaþjóðar sinnar, en þeir urðu ekki fleiri því landsliðið var lagt niður um nokkurra ára skeið.
Stjarnan hefur fengið tvo öfluga markverði í hennar stað, Erin McLeod landsliðsmarkvörð frá Kanada sem kom frá Orlando Pride í bandarísku atvinnudeildinni, og Auði Scheving sem kom í láni frá Val og lék með bæði ÍBV og Aftureldingu í Bestu deildinni í fyrra en hún hefur verið í íslenska landsliðshópnum á undanförnum mánuðum.