Áfrýjun Sigurðar vísað frá – í banni allt tímabilið

Sigurður Gísli Bond Snorrason fagnar marki í leik með Þrótti …
Sigurður Gísli Bond Snorrason fagnar marki í leik með Þrótti úr Vogum sumarið 2021. Ljósmynd/Guðmann Rúnar Lúðvíksson

Áfrýjunardómstóll Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, hefur vísað áfrýjun Sigurðar Gísla Bond Snorrasonar frá og þar með staðfest úrskurð aga- og úrskurðarnefndar um að meina honum þátttöku í knattspyrnu keppnistímabilið 2023.

Sigurður Gísli gerðist upp­vís að því að veðja á hundruð knatt­spyrnu­leikja hér á landi á síðasta tíma­bili þegar hann lék með Aftureldingu í næstefstu deild.

Veðjaði hann til að mynda á fimm leiki með eig­in liði.

Í lok janúar var Sigurður Gísli, sem nú er á mála hjá KFK í fimmtu efstu deild, úrskurðaður í bann frá keppni allt þetta ár og nú er ljóst að bannið stendur.

Í dómi áfrýjunardómstóls KSÍ segir meðal annars:

„Að mati dómsins er ótvírætt að í grein 6.2. laga KSÍ sé aðilum sem falla undir lögin og taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ meinað og beinlínis óheimilt að taka þátt í hvers konar veðmálastarfsemi, beint eða óbeint, í tengslum við eigin leiki og eigin mót.

Í tilfelli leikmanns, þá er viðkomandi óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi í tengslum við leiki sem leikmaður er þátttakandi í. Þá sé leikmanni óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi í tengslum við þau mót sem samningsfélag leikmanns eða það lið sem leikmaður er virkur leikmaður hjá er þátttakandi í.

Með vísan til þessa þá er það mat dómsins að á því tímabili sem hér er til umfjöllunar, frá 23. júlí 2022 til 4. september 2022, þá nái grein 6.2. til knattspyrnuleikja áfrýjanda með Aftureldingu í Lengjudeild karla og annarra leikja sömu deildar og annarra keppna sem Afturelding var þátttakandi í á því tímabili.“

Dóminn má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert