Sigurmark Vals gegn HK á síðustu stundu

Lúkas Logi Heimisson í leik með Fjölni í fyrra. Hann …
Lúkas Logi Heimisson í leik með Fjölni í fyrra. Hann skoraði sigurmark Vals í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Valsmenn eiga alla möguleika á að komast í undanúrslit deildabikars karla í fótbolta eftir nauman sigur á HK á Hlíðarenda í kvöld, 1:0.

Lúkas Logi Heimisson, sem kom til Vals frá Fjölni í vetur, skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.

Valsmenn eru því komnir með 12 stig eftir fjóra leiki og hafa enn ekki fengið á sig mark í mótinu. KR er með 9 stig, HK 6, ÍA 3, Grindavík og Vestri eru án stiga.

Val dugir jafntefli gegn Grindavík í lokaleik sínum til að vinna riðilinn og komast í undanúrslit. Tapi þeir leiknum komast KR-ingar áfram með því að vinna ÍA.

Þá gerðu Stjarnan og Fram markalaust jafntefli í 3. riðli keppninnar. Víkingur hefur þegar unnið riðilinn með 12 stig, Stjarnan fékk 8 stig, Fram er með 5, Njarðvík 3, Grótta 3 og Afturelding eitt stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert