„Ég er búin að vera að hugsa þetta í talsverðan tíma,“ sagði Sandra Sigurðardóttir, leikjahæsta knattspyrnukona efstu deildar frá upphafi, í samtali við Morgunblaðið.
Sandra gaf það út í gær að hún væri hætt í fótbolta, eftir sérlega farsælan 22 ára feril í meistaraflokki. Sandra er 36 ára og hefur því verið í fótbolta í fremstu röð á Íslandi stóran hluta ævinnar.
„Ég lá svolítið í dvala eftir landsliðsverkefnið í október og þegar við komumst ekki á HM. Eftir hvíld og að hafa reynt að æfa aftur til að finna kraftinn og ástríðuna, þá komst ég að því að það væri ekki lengur til staðar og þá væri kominn tími til að kalla þetta gott.
Það breytti stöðunni að komast ekki á HM, en þetta er eitthvað sem ég hef hugsað síðustu 2-3 ár. Þetta var ekki endilega nýtt af nálinni. Hvert ár telur, bæði andlega og líkamlega, og maður er ekkert að yngjast. Þetta er flottur tímapunktur líka, að geta gengið stolt frá öllu sem ég hef gert, og lokað þessum kafla,“ sagði hún og viðurkenndi síðan að ferillinn hefði lengst, ef Ísland hefði komist á HM í sumar.
Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag