Þór/KA vann 4:3-sigur á Val í Lengjubikar kvenna í fótbolta í kvöld. Leikurinn var liður í riðli 1.
Sandra María Jessen fór réttu megin fram úr rúminu í morgun, því hún var búin að skora þrennu eftir 35 mínútur.
Amalía Árnadóttir skoraði einnig fyrir Þór/KA á 31. mínútu, en Bryndís Arna Níelsdóttir minnkaði muninn fyrir Val í 2:1 á 30. mínútu.
Krista Dís Kristinsdóttir skoraði sjálfsmark á 73. mínútu og minnkaði muninn í 4:2, áður en Ásdís Karen Halldórsdóttir minnkaði muninn í 4:3 á lokamínútunni og þar við sat.
Þróttur úr Reykjavík og Þór/KA eru efst í riðlinum með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Selfoss er í þriðja sæti með þrjú stig en Valur, FH og KR eru án stiga.