Knattspyrnukonan Sigríður Lára Garðarsdóttir hefur lagt skóna á hilluna eftir ráðleggingar frá lækni. Eyjakonan greindi frá ákvörðuninni á Facebook í dag.
Sigríður, sem er 28 ára gömul, er uppalinn hjá ÍBV og lék með liðinu allt til ársins 2020, þegar hún gekk í raðir FH. Ári síðar fór hún í Val og svo aftur í FH, þar sem hún lék á síðustu leiktíð.
Alls lék Sigríður 167 leiki í efstu deild og skoraði í þeim 24 mörk. Í B-deild skoraði hún níu mörk í 49 leikjum. Þá lék hún 20 A-landsleiki fyrir Ísland, þann síðasta gegn Skotlandi á Pinatar Cup í mars 2020.