Skórnir á hilluna hjá Guðmanni

Guðmann Þórisson lék síðast með Kórdrengjum.
Guðmann Þórisson lék síðast með Kórdrengjum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnumaðurinn Guðmann Þórisson hefur lagt skóna á hilluna, en hann er 36 ára gamall.

Guðmann greindi frá ákvörðuninni á Instagram og voru skilaboðin skýr. „Hættur þessu helvítis tuðrusparki, takk fyrir mig allir,“ skrifaði Guðmann.

Varnarmaðurinn ólst upp hjá Breiðabliki og lék þar til ársins 2009 en síðan með Nybergsund í Noregi í tvö ár. Hann lék með FH árin 2012 og 2013, með Mjällby í Svíþjóð árið 2014, og aftur með FH árið 2015 en hann varð tvisvar Íslandsmeistari með Hafnarfjarðarliðinu.

Guðmann fór til Akureyrar og lék með KA árin 2016-2018 en þá lá leiðin enn á ný í FH þar sem hann lék í þrjú ár, til loka tímabilsins 2021. Á síðasta ári lék Guðmann með Kórdrengjum í 1. deild og það var hans síðasta á ferlinum.

Guðmann lék alls 155 leiki í efstu deild og skoraði í þeim átta mörk. Samtals lék hann 245 deildaleiki á ferlinum, heima og erlendis, og skoraði 13 mörk. Guðmann lék einn A-landsleik og 15 leiki með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert