Mjög spenntur fyrir næstu landsleikjum

Alfreð Finnbogason á að baki 63 A-landsleiki.
Alfreð Finnbogason á að baki 63 A-landsleiki. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög spenntur fyrir næstu lands­leikjum sem og lands­leikja­árinu fram undan,“ sagði knattspyrnumaðurinn Alfreð Finnbogason í samtali við Fréttablaðið á dögunum.

Alfreð, sem er 34 ára gamall, hefur spilað vel með Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni að undanförnu en alls á hann að baki 63 A-landsleiki þar sem hann hefur skorað 15 mörk.

Hann hefur verið óheppinn með meiðsli á undanförnum árum en horfir björtum augum til framtíðar og er afar spenntur fyrir komandi landsliðsverkefnum.

Blanda sem getur gert góða hluti

Það eru bara virki­lega spennandi tímar fram undan hjá lands­liðinu, auð­vitað er mikill munur á yngstu og elstu leik­mönnum en ég held að þetta sé blanda sem geti orðið til þess að góðir hlutir gerist,“ sagði Alfreð.

„Það eru mögu­leikar í stöðunni. Það eru bara tíu leikir í þessari undan­keppni og þetta mun ráðast á smá­at­riðum, eitt mark til eða frá í mikil­vægum leikjum getur orðið rosa­lega dýrt á endanum.

Þess vegna er þessi fyrsti leikur í keppninni gríðar­lega mikil­vægur, án þess þó að ég sé að ýkja það eitt­hvað rosa­lega mikið. Grunnurinn er sá sami og alltaf. Við verðum að vinna okkar heima­leiki, fá sem flest stig þar og reyna að kroppa í sem flest stig á úti­velli,“ sagði Alfreð í samtali við Fréttablaðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert