Eyjamenn áfram á sigurbraut

Eyjamenn fagna marki á síðasta tímabili.
Eyjamenn fagna marki á síðasta tímabili. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann góðan sigur á Leikni úr Reykjavík, 2:0, þegar liðin áttust við í riðli 2 í A-deild karla í Lengjubikarnum á Domusnova-vellinum í Breiðholti í kvöld.

Bæði mörkin komu með stuttu millibili eftir um hálftíma leik.

Slóveninn Filip Valencic skoraði á 27. mínútu og Felix Örn Friðriksson tvöfaldaði forystuna fjórum mínútum síðar.

Aðeins var um annan leik Eyjamanna í riðlinum að ræða en þeir hafa báðir unnist. 5:1-stórsigur á FH vannst um síðustu helgi.

ÍBV á enn möguleika á að tryggja sér sæti í undanúrslitum Lengjubikarsins enda á toppi riðilsins sem stendur með sex stig.

Á föstudag heimsækir liðið Selfoss og eftir tæpa viku, á þriðjudag, mæta Eyjamenn Breiðabliki, sem er með sex stig í öðru sæti riðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert