Íslands- og bikarmeistarar Vals tóku heldur betur við sér í kvöld og gjörsigruðu Selfyssinga, 7:1, í deildabikar kvenna í fótbolta, Lengjubikarnum, þegar liðin mættust á Hlíðarenda.
Valskonur höfðu tapað tveimur fyrstu leikjum sínum, gegn Þrótti og Þór/KA og urðu að vinna í kvöld til að eiga von um að komast í undanúrslit.
Þórdís Elva Ágústsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í fyrri hálfleik en Katrín Ágústsdóttir minnkaði muninn í 3:1 fyrir hlé.
Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði tvö mörk fyrir Val í síðari hálfleiknum, Kolbrá Una Kristinsdóttir og Bryndís Arna Níelsdóttir eitt hvor.
Eftir þrjár umferðir af fimm eru Þróttur og Þór/KA með níu stig, Valur, FH og Selfoss eru með þrjú stig hvert og KR er án stiga. Tvö efstu liðin komast í undanúrslit. Þróttur og Þór/KA mætast á föstudagskvöld og jafntefli myndi koma þeim báðum áfram.