Valsmenn komust í kvöld í undanúrslit deildabikars karla í fótbolta, Lengjubikarsins, með því að gera markalaust jafntefli við Grindvíkinga á meðan KR lagði Skagamenn að velli.
Stigið dugði Valsmönnum sem höfðu unnið hina fjóra leiki sína, enduðu riðilinn með 13 stig af 15 mögulegum og fengu ekki á sig mark.
KR vann ÍA 3:1 og endar með 12 stig. Viktor Jónsson kom Skagamönnum yfir á 3. mínútu, Jóhannes Kristinn Bjarnason og Kristján Flóki Finnbogason svöruðu fyrir KR fyrir hlé og Freyr Þrastarson skoraði þriðja mark Vesturbæinga skömmu fyrir leikslok.
ÍA endaði með sex stig, HK er með sex stig, Grindavík eitt og Vestri ekkert. Tveir síðustu leikir riðilsins eru viðureignir Vestra við HK annað kvöld og við Grindavík á sunnudaginn.
Auk Valsmanna eru Víkingur og KA komin í undanúrslit deildabikarsins og fjórða liðið verður ÍBV eða Breiðablik. Ljóst er að Valur mætir Víkingi og KA mætir annaðhvort ÍBV eða Breiðabliki.