Bandarískur reynslubolti til Blika

Toni Pressley í leik með Washington Spirit árið 2013.
Toni Pressley í leik með Washington Spirit árið 2013. Ljósmynd/Erica McCaulley

Bandaríska knattspyrnukonan Toni Pressley hefur fengið félagaskipti til Breiðabliks og mun leika með liðinu á komandi tímabili.

Pressley, sem er 33 ára varnarmaður, kemur frá Orlando Pride í bandarísku NWSL-deildinni og er þar með þriðji leikmaðurinn sem kemur til Íslands frá félaginu fyrir komandi tímabil.

Áður höfðu hjónin Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, og kanadíski landsliðsmarkvörðurinn Erin McLeod skipt úr Orlando til Stjörnunnar.

Pressley býr yfir mikilli reynslu þar sem hún hefur leikið í NWSL-deildinni, þeirri efstu í Bandaríkjunum, stærstan hluta ferilsins. Hefur Pressley til að mynda leikið með Houston Dash og Washington Spirit, ásamt Orlando frá árinu 2016.

Henni stóð nýr samningur til boða hjá Orlando en ákvað að hafna tilboðinu.

Pressley á fjölda leikja að baki fyrir yngri landslið Bandaríkjanna og hefur einnig leikið í efstu deildum Ástralíu og Rússlands, með Canberra United og Ryazan.

Hún var um skeið trúlofuð brasilísku stórstjörnunni Mörtu, fyrirliða Orlando Pride.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert