HK og Vestri skildu jöfn, 1:1, þegar liðin áttust við í riðli 1 í A-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í Kórnum í gærkvöldi.
Markalaust var í leikhléi en Vestri náði forystunni á 57. mínútu þegar HK-ingar urðu fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.
Vestri virtist vera að sigla sínum fyrsta sigri í riðlinum í höfn þegar HK fékk dæmda vítaspyrnu í uppbótartíma.
Úr henni skoraði Belginn Marciano Aziz, á þriðju mínútu uppbótartímans, og tryggði HK þannig stig.
Valur vann riðilinn með 13 stigum og fer í undanúrslit, KR fékk 12 stig en HK hafnaði í þriðja sæti með sjö stig og ÍA varð í fjórða sæti með sex stig.
Vestri og Grindavík eru með eitt stig hvort og mætast í lokaleik riðilsins á sunnudag.