Viðar náði stórum áfanga

Viðar Örn Kjartansson skoraði 43 mörk fyrir Vålerenga í norsku …
Viðar Örn Kjartansson skoraði 43 mörk fyrir Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni. Ljósmynd/Jon Forberg

Viðar Örn Kjartansson knattspyrnumaður frá Selfossi náði í dag stórum áfanga á ferlinum þegar hann lék með Atromitos gegn Panathinaikos í grísku úrvalsdeildinni.

Viðar, sem varð 33 ára í gær, lék sinn 400. deildaleik á ferlinum í dag og hann er aðeins 35. íslenski knattspyrnumaðurinn sem nær þeim leikjafjölda á ferlinum, í deildakeppni heima á Íslandi sem erlendis.

Hann hefur leikið þessa 400 leiki í deildakeppnum átta landa og hefur í þeim öllum spilað í efstu deild. 

Af þessum leikjum eru 139 á Íslandi, þar af 72 í efstu deild, 71 í Noregi, 28 í Kína, 35 í Svíþjóð, 63 í Ísrael, 23 í Rússlandi, 15 í Tyrklandi og nú 26 í Grikklandi.

Viðar Örn Kjartansson er uppalinn hjá Selfyssingum og lék með …
Viðar Örn Kjartansson er uppalinn hjá Selfyssingum og lék með heimaliðinu í þremur efstu deildum Íslandsmótsins. mbl.is/Árni Sæberg

Viðar lék með meistaraflokki Selfyssinga á árunum 2006 til 2008 og 2010 til 2012 og lék þar 100 deildaleiki í úrvalsdeild, 1. og 2. deild og skoraði 38 mörk.

Hann lék með ÍBV í efstu deild tímabilið 2009, spilaði 17 leiki og skoraði tvö mörk, og með Fylki í efstu deild 2013 þar sem hann lék 22 leiki og skoraði 13 mörk. Viðar varð einn þriggja sem urðu jafnir og markahæstir í deildinni 2013.

Viðar Örn Kjartansson skoraði 13 mörk fyrir Fylki tímabilið 2013.
Viðar Örn Kjartansson skoraði 13 mörk fyrir Fylki tímabilið 2013. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Markakóngur í Noregi og Ísrael

Viðar lék með Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni tímabilið 2014 og varð þar markakóngur deildarinnar með 25 mörk í 29 leikjum.

Þaðan fór hann til Kína og lék með Jiangsu tímabilið 2015 þar sem hann spilaði 28 leiki og varð markahæsti leikmaður liðsins með níu mörk.

Viðar fór frá Jiangsu til Malmö í Svíþjóð fyrir tímabilið 2016 og hafði skorað 14 mörk í 20 leikjum þegar hann var seldur til Maccabi Tel Aviv í Ísrael í ágúst sama ár. Hann varð næstmarkahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar þó hann spilaði ekki síðustu tíu leiki tímabilsins.

Viðar Örn Kjartansson í Evrópuleik með Maccabi Tel Aviv gegn …
Viðar Örn Kjartansson í Evrópuleik með Maccabi Tel Aviv gegn KR í Vesturbænum árið 2017. mbl.is/Árni Sæberg

Með Maccabi Tel Aviv lék Viðar í tvö tímabil á árunum 2016 til 2018 þar sem hann skoraði 32 mörk í 63 deildaleikjum. Hann varð markakóngur deildarinnar fyrra tímabilið og næstmarkahæstur það síðara.

Viðar fór þaðan til Rostov í Rússlandi og lék þar sjö leiki í úrvalsdeildinni tímabilið 2018-2019.

Hann fór frá Rostov til Hammarby í Svíþjóð, spilaði þar hálft tímabilið 2019 og skoraði sjö mörk í 15 leikjum.

Viðar Örn Kjartansson fagnar marki í leik með Hammarby í …
Viðar Örn Kjartansson fagnar marki í leik með Hammarby í Svíþjóð árið 2019. Ljósmynd/Hammarby

Þá lá leiðin aftur til Rússlands og Viðar lék fyrri hluta tímabilsins 2019-20 með Rubin Kazan þar sem hann spilaði 16 leiki og skoraði eitt mark.

Seinni hluta tímabilsins lék hann með Yeni Malatyaspor í Tyrklandi og skoraði tvö mörk í 15 leikjum.

Frá Tyrklandi sneri Viðar aftur til Noregs á miðju tímabili 2020 og lék þar með Vålerenga á ný í tvö ár, eða fram undir mitt tímabil 2022. Hann spilaði 42 deildarleiki og skoraði 18 mörk.

Viðar Örn Kjartansson í búningi Yeni Malatyaspor í Tyrklandi.
Viðar Örn Kjartansson í búningi Yeni Malatyaspor í Tyrklandi. Ljósmynd/Yeni Malatyaspor

Viðar gekk til liðs við Atromitos í Grikklandi fyrir tímabilið 2022-23 og þar hefur hann nú leikið alla 26 leiki liðsins á yfirstandandi tímabili og skorað í þeim fimm mörk.

Í þessum 400 leikjum hefur Viðar skorað 166 mörk. Hann er næstmarkahæsti íslenski knattspyrnumaðurinn í deildakeppni erlendis með 113 mörk, á eftir Heiðari Helgusyni.

Viðar hefur leikið 32 A-landsleiki fyrir Íslands hönd og skorað í þeim fjögur mörk og þá spilaði hann tíu leiki með yngri landsliðum Íslands og skoraði fjögur mörk.

Þar með hafa nú 35 íslenskir knattspyrnumenn spilað 400 deildaleiki eða fleiri á ferlinum, og þar af hafa fjórir náð að spila 500 leiki eða meira. Síðastur á undan Viðari til að ná þessum áfanga var Baldur Sigurðsson í júlí 2022. Lista yfir alla þá leikmenn sem hafa leikið 400 leiki eða fleiri á ferlinum má sjá í bókinni Íslensk knattspyrna 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert