Eyjamenn skelltu Blikum og fara í undanúrslit

Halldór Jón Sigurður Þórðarson, sóknarmaður ÍBV, og Viktor Örn Margeirsson, …
Halldór Jón Sigurður Þórðarson, sóknarmaður ÍBV, og Viktor Örn Margeirsson, varnarmaður Blika, í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV varð í kvöld fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum deildabikars karla í fótbolta, Lengjubikarsins, með því að sigra Íslandsmeistara Breiðabliks, 3:2, á Kópavogsvellinum.

Þetta var hreinn úrslitaleikur liðanna en Eyjamenn voru þremur stigum yfir og með mun betri markatölu þannig að Blikar urðu að vinna þriggja marka sigur til að ná efsta sætinu og komast áfram.

ÍBV vann 2. riðil keppninnar með 12 stig, Breiðablik fékk 6 stig, FH 6, Selfoss 3 og Leiknir R. 3 stig en Kórdrengir drógu sig úr keppni.

Patrik Johannesen kom Blikum yfir á 13. mínútu en Alex Freyr Hilmarsson jafnaði fyrir Eyjamenn seint í fyrri hálfleiknum, 1:1, eftir að Blikar töpuðu  boltanum klaufalega í eigin vítateig.

Halldór Jón Sigurður Þórðarson kom ÍBV yfir í byrjun síðari hálfleiks, 2:1, eftir snögga sókn og sendingu frá Filip Valencic en Patrik skoraði aftur fyrir Blika á 76. mínútu, eftir sendingu Höskulds Gunnlaugssonar og jafnaði metin í 2:2.

Það var svo í uppbótartíma leiksins sem Bjarki Björn Gunnarsson skoraði sigurmark Eyjamanna eftir snögga sókn og sendingu Hermanns Þórs Ragnarssonar, 3:2.

Eyjamenn mæta því KA í undanúrslitum á laugardaginn og í hinum leiknum mætast Reykjavíkurliðin Víkingur og Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert