Enski knattspyrnumaðurinn Marley Blair er genginn í raðir Keflavíkur að nýju og mun leika með liðinu á komandi tímabili.
Blair, sem er 23 ára kantmaður, lék með Keflvíkingum í efstu deild sumarið 2021 og til stóð að hann gerði slíkt hið sama á síðasta tímabili.
Hann þurfti þó frá að hverfa í mars á síðasta ári og kom þá fram í tilkynningu frá knattspyrnudeild Keflavíkur að ástæðurnar fyrir því væru persónulegar.
Karla- og kvennalið Keflavíkur eru sem stendur í æfingaferð á Spáni, þar sem Blair hitti fyrir liðsfélaga sína.
„Marley hitti hópinn í æfingaferðinni og hefur æft vel með þeim þar. Marley missti því miður af síðasta tímabili og erum við spennt að sjá hann aftur hjá okkur,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Keflavíkur.
Blair var á sínum yngri árum á mála hjá Liverpool og síðar Burnley. Yngri bróðir hans, Harvey, er leikmaður Liverpool og á að baki einn leik fyrir aðalliðið í enska deildabikarnum.