Birkir Bjarnason, leikjahæsti leikmaður karlalandsliðs Íslands í fótbolta frá upphafi, missir af leik í undankeppni eða lokakeppni EM í fyrsta skipti í tólf ár þegar Ísland mætir Bosníu í Zenica fimmtudaginn 23. mars.
Frá því Ísland mætti Noregi í Ósló í undankeppni EM 2. september árið 2011 hefur Birkir leikið hvern einasta leik Íslands í undankeppni EM og í lokakeppni EM, eða samtals 28 leiki í röð.
Á sama tíma hefur hann aðeins misst af tveimur öðrum mótsleikjum. Birkir lék ekki með gegn Kósóvó í undankeppni HM vegna meiðsla árið 2017 og missti síðan af leik gegn Belgíu í Þjóðadeild UEFA árið 2018.
Frá leiknum gegn Noregi haustið 2011 hefur Birkir spilað 75 mótsleiki fyrir Ísland af 77 mögulegum.
Birkir hefur samtals leikið 113 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, níu leikjum meira en sá næstleikjahæsti hjá karlalandsliðinu sem er Rúnar Kristinsson.