Agla María Albertsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild Breiðabliks. Nýi samningurinn gildir út tímabilið 2024.
Samningur hinnar 23 ára gömlu Öglu Maríu við Breiðablik rann út í lok síðasta árs en nú er ljóst að hún verður áfram í herbúðum uppeldisfélagins næstu tvö tímabil.
Hún hóf meistaraflokksferilinn aðeins 15 ára gömul með Val er hún lék átta leiki og skoraði tvö mörk í úrvalsdeildinni.
Agla María söðlaði þá um og lék með Stjörnunni í tvö tímabil áður en hún hélt aftur til Breiðabliks fyrir tímabilið 2018.
Þar hefur hún leikið undanfarin ár, fyrir utan hálft tímabil á síðasta ári þar sem hún var á mála hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Häcken.
Agla María er fjórði markahæsti leikmaður kvennaliðs Breiðabliks frá upphafi með 110 mörk í 146 leikjum í öllum keppnum. Hún hefur skorað 60 mörk í 119 leikjum í efstu deild, þar af 50 mörk í 77 leikjum fyrir Breiðablik.
Hún á 53 A-landsleiki að baki, þar sem hún hefur skorað fjögur mörk. Var Agla María í lokahópi Íslands á EM 2017 og 2022.
Við færum ykkur gleðifréttir á þessum frábæra fimmtudegi 💚
— Breiðablik FC (@BreidablikFC) March 16, 2023
Agla María Albertsdóttir - @aglamariaa hefur skrifað undir samning út árið 2024.
Hún er 4 markahæsta kona okkar Blika frá upphafi, hefur skorað 110 mörk í 146 leikjum 🥇⚽️
📷@hhalldors pic.twitter.com/1U3suViFi6