Þór/KA vann Selfoss, 7:2, í Boganum á Akureyri í dag. Þar með tryggði liðið sig í undanúrslit deildabikarsins hvar það mætir liði Breiðabliks, 23. mars næstkomandi. Í hinum undanúrslitaleiknum, tveimur dögum síðar, mætast Þróttur og Stjarnan.
Selfyssingar skoruðu fyrsta mark leiksins en þar var að verki Katla María Þórðardóttir á 18. mínútu.
Tahnai Lauren Annis jafnaði metin rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Sandra María Jessen kom Norðankonum yfir í upphafi seinni hálfleiks og tvöfaldaði forystu þeirra á 69. mínútu. Þór/KA gerði tvö mörk á 75. mínútu og staðan var skyndilega orðin 5:1. Þar voru að verki þær Agnes Birta Stefánsdóttir og Emelía Ósk Kruger.
Selfyssingar urðu fyrir því óláni að setja boltann í eigið net tveimur mínútum síðar og það var svo Sandra María sem fullkomnaði þrennuna með sjöunda og síðasta marki Þór/KA þegar fjórar mínútur lifðu leiks.
Katrín Ágústsdóttir minnkaði muninn fyrir Selfoss í viðbótartíma og þar við sat. Lokatölur voru 7:2.