Streymisveitan Viaplay mun áfram sýna leiki A-landsliðs karla í knattspyrnu. Fram undan eru fyrstu leikirnir í undankeppni EM 2024, gegn Bosníu og Hersegóvínu þann 23. mars og Liechtenstein þremur dögum síðar.
Hjörvar Hafliðason, yfirmaður íþrótta hjá Viaplay, er ekki í vafa um að íslenska landsliðið eigi mjög góða möguleika í undankeppninni.
„Þetta er lið sem gæti farið á EM í Þýskalandi á næsta ári. Blanda af ungum spennandi leikmönnum eins og Hákoni Haraldssyni og Jóni Degi með reynslumiklum mönnum úr gullkynslóðinni,“ sagði Hjörvar í fréttatilkynningu frá veitunni.
Undir það tók Rúrik Gíslason, knattspyrnusérfræðingur hjá Viaplay.
„Ísland er að fara að láta til sín taka í alþjóðlegum bolta á ný. Þarna eru nýir spennandi leikmenn sem hafa að undanförnu leikið vel með félagsliðum sínum. Við eigum að vera bjartsýn. EM er raunhæft markmið.“
Til að horfa á útsendingar frá leikjum íslenska landsliðsins þarf Viaplay Total áskrift.