Bandaríski knattspyrnumarkvörðurinn Amber Michel, sem hefur verið lykilmaður Tindastóls undanfarin ár, hefur ákveðið að leggja markmannshanskana á hilluna.
Ástæðan fyrir því að Michel, sem er aðeins 25 ára gömul, ákveður að láta staðar numið er sú að henni bauðst einkar góð atvinna í heimalandinu, og ákvað Michel að þekkjast boðið.
Hún hefur leikið með Tindastóli undanfarin þrjú tímabil og látið afar vel að sér kveða.
Michel hefur í tvígang hjálpað liðinu upp úr næstefstu deild og var sannkallaður lykilmaður hjá Stólunum á fyrsta tímabili liðsins í úrvalsdeild sumarið 2021.
Alls lék hún 18 leiki í efstu deild fyrir Tindastól, 35 í næstefstu deild og sex bikarleiki.