Nýliðar Ægis úr Þorlákshöfn í 1. deild karla halda áfram að styrkja sig fyrir átökin í sumar. Ægir komst upp í 1. deild eftir að Kórdrengir drógu sig úr keppni í vetur.
Ægir hefur nú komist að samkomulagi við Þorgeir Ingvarsson um að leika með liðinu næstu tvö árin en Þorgeir kemur til liðsins frá Magna Grenivík. Þorgeir er á 23. aldursári en hann á að baki 17 leiki í B-deild. Þorgeir er 13. leikmaðurinn sem gengur til liðs við liðið.
Í tilkynningu Ægis, sem má sjá í heild sinni hér að neðan, segir m.a.:
„Það gleður okkur að staðfesta komu Þorgeirs til félagsins frá Magna Grenivík. Þorgeir er fjölhæfur leikmaður sem getur leyst bakvörð, miðju og jafnvel brugðið sér í sóknina.“