KA og Valur mætast í úrslitaleik deildabikars karla í knattspyrnu, Lengjubikarsins, þetta árið en liðin lögðu ÍBV og Víking í undanúrslitum.
Leikur liðanna mun fara fram á Greifavellinum á Akureyri, heimavelli KA, þann 2. apríl næstkomandi kl. 16. Er þetta í fyrsta sinn sem úrslitaleikur A-deildar karla í keppninni fer fram utan höfuðborgarsvæðisins.
KA vann ÍBV í vítaspyrnukeppni eftir markalaust jafntefli í undanúrslitunum og Valur vann Víking þar sem Akureyringurinn Birkir Heimisson skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.
Arnar Grétarsson, þjálfari Vals, er auðvitað fyrrverandi þjálfari KA og er hann því á leið á sinn gamla heimavöll.