Dominique Randle, landsliðskona Filippseyja í knattspyrnu, hefur samið við Þór/KA um að leika með liðinu á komandi tímabili.
Randle, sem er 28 ára miðvörður, er fædd í Bandaríkjunum en hefur leikið fyrir Filippseyjar frá síðasta ári og spilaði til að mynda gegn Íslandi í vináttuleik í síðasta mánuði.
Hún lék um fimm ára skeið fyrir háskólalið Suður-Kaliforníu háskólans, Trojans, en hefur undanfarin ár spilað fyrir lið Eastside í neðri deildum Bandaríkjanna.
Fyrir tímabilið 2022 var hún á reynslu hjá Angel City í NWSL-deildinni í Bandaríkjunum, efstu deildinni þar í landi, en fékk ekki samning.
Önnur filippseysk landsliðskona sem einnig er fædd í Bandaríkjunum, Tahnai Annis, samdi við Þór/KA í janúar síðastliðnum. Lék Annis áður með Akureyrarliðinu um þriggja ára skeið, árin 2012 til 2014, og varð Íslandsmeistari með því á sínu fyrsta ári.
Bæði Randle og Annis eru á leið á HM 2023 í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í sumar.