Íþróttafréttamaðurinn Hörður Magnússon hefur mikla trú á knattspyrnu- og landsliðsmanninum Hákoni Arnari Haraldssyni en hann er samningsbundinn FC Köbenhavn í Danmörku.
Þetta kom fram í samtali hans við RÚV í gær en Hákon Arnar, sem er einungis 19 ára gamall, hefur leikið frábærlega í Danmörku á tímabilinu.
Hann verður að öllum líkindum í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu í kvöld þegar liðið mætir Bosníu í fyrsta leik sínum í J-riðli undankeppni EM 2024 í Zenica í Bosníu.
„Hákon Arnar Haraldsson hefur verið frábær fyrir FC Köbenhavn og hann var auðvitað að skrifa undir langtíma samning við félagið á dögunum,“ sagði Hörður.
„Hann er mögulega að verða okkar skærasta stjarna, vonarstjarna, og hann er kannski aðeins að taka við því hlutverki sem Gylfi Þór Sigurðsson var í,“ bætti Hörður við í samtali við RÚV.