Leikur Íslands og Bosníu í undankeppni EM karla í fótbolta verður spilaður á Bilino Polje-vellinum í Zenica. Zenica er iðnaðarborg, 70 kílómetra norður af höfuðborginni Sarajevo.
Zenica er ekki túristaborg. Fáir í borginni tala ensku og borgin er hve þekktust fangelsi sem var það stærsta þegar Júgóslavía var og hét og stærstu stálverksmiðju heims.
Vegna þessa er loftið í borginni ekki ósvipað og í Reykjavík á áramótunum og mengunin mikil. Þá brenna íbúar borgarinnar gjarnan við og kol til að hita upp húsin sín.
Í kringum borgina má enn sjá merki þess að stríð herjaði á íbúa þess undir lok síðustu aldar. Mörg hús þarfnast viðhalds og hafa munað fífil sinn fegurri. Í bakgrunninum eru stórglæsilegir fjallagarðar og er náttúran umhverfis borgina gríðarlega falleg.
Völlurinn er hinn ágætasti og er von á mikilli stemningu í kvöld. Fólkið er gríðarlega almennilegt og forvitið um Ísland. Bosnískir blaðamenn kepptust um að hjálpa þegar ofanritaður þurfti aðstoð fyrir blaðamannafund á vellinum og fólk er hið kurteisasta.
Staðan í Bosníu hefur oft verið flókin. Hér eru kirkjur og moskur hlið við hlið og þjóðhópar sem kljást. Hafa Serbar og Króatar gjarnan viljað skipta sér að stjórnmálum í Bosníu, sem getur skapað hita.
Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir sem ofanritaður tók á ferð sinni um Zenica, þar sem ævintýri íslenska karlalandsliðsins í undankeppni EM hefst.