Kári Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er bjartsýnn á gott gengi íslenska liðsins í komandi undankeppni EM 2024 sem hefst í dag.
Ísland leikur í J-riðli undankeppninnar ásamt Bosníu, Liechtenstein, Lúxemborg, Portúgal og Slóvakíu en íslenska liðið mætir Bosníu í Zenica í kvöld og svo Liechtenstein í Vaduz á sunnudaginn kemur.
Kári, sem lagði skóna á hilluna árið 2021, lék 90 A-landsleiki fyrir Ísland á árunum 2005 til ársins 2021 og var lykilmaður í liði Íslands sem tók þátt í lokakeppni EM árið 2016 í Frakklandi og í lokakeppni HM í Rússlandi árið 2018.
„Leikurinn gegn Bosníu leggst ágætlega í mig,“ sagði Kári í samtali við Morgunblaðið.
„Ég held að þeir séu með reynslumeira lið og leikmenn Bosníu spila kannski í stærri deildum en leikmenn íslenska liðsins. Við erum hins vegar með hörkulið og ef leikplanið er gott þá eigum við alveg að búast við einhverjum úrslitum.“
Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.