„Íþróttir eru ekki byrði á samfélaginu“

Þorsteinn Halldórsson á blaðamannafundi á síðasta ári.
Þorsteinn Halldórsson á blaðamannafundi á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, telur að þegar litið er til byggingar nýs þjóðarleikvangs ætti ekki að einblína á kostnað heldur leggja mat á hvað íþróttir færa samfélaginu.

Litlu miðar í byggingu nýs þjóðarleikvangs og á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag var hann spurður út í skoðun sína á málinu. 

„Mér finnst íþróttasamfélagið ekki nógu sterkt að tala um það að íþróttir eru ekki byrði á samfélaginu, þetta er ekki bara kostnaður fyrir ríki og sveitarfélög. Ég sem þjálfari borga skatta alveg eins og allir aðrir.

Íþróttasamfélagið, þjálfarasamfélagið og íþróttafélögin borga fullt af sköttum. Ríki og sveitarfélög fá fullt af tekjum frá fólki sem vinnur í íþróttahreyfingunni.

Ég veit ekki hvort það sé búið að taka þetta saman en það væri allt í lagi að taka þetta saman og fá að vita hvað knattspyrnusamfélagið sem heild borgar til samfélagsins í formi skatta, gjalda, launatengdra gjalda og allt sem fylgir þessu,“ sagði Þorsteinn þá.

Bull að þjóðarleikvangur sé bara kostnaður

Hann hélt áfram:

„Þetta eru fullt af peningum, þetta er ekki þannig að þjóðarleikvangur sé bara kostnaður, það er bara bull vegna þess að hreyfingin sem slík er risastór. Fótboltasamfélagið samanstendur af 30.000 iðkendum.

Ef við gefum okkur það að 30.000 iðkendur borgi rúmlega 100.000 kr. fyrir að taka þátt í íþróttinni sinni á ári þá er það ágætis peningur. Það eru fullt af peningum sem koma til ríkis og sveitarfélaga frá íþróttafélögum og svo erum við líka að tala um öll önnur störf og allt annað sem tengist þessu, þetta er alveg gríðarlegt fjármagn líka.

Í rauninni finnst mér að íþróttahreyfingin ætti að vera grimmari í því að sýna fram á að hreyfingin er góð, öflug og hún er ekki dragbítur á þjóðfélagið, hún er að gefa af sér fullt af peningum og skapa fjármuni inn í samfélagið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert