Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum en þessi dagskrárliður hóf göngu sína fyrir þremur árum.
Viðburður sem iðulega hefur verið kallaður Íslandsmótið innanhúss hjá Knattspyrnusambandi Íslands hefur tekið breytingum í gegnum tíðina. Nú er Fútsal hnýtt við nafnið og er uppsetningin í takti við Fútsal á alþjóðavísu. Er leikið í íþróttahúsum og á gólfi og er einnig keppt á í blaki, körfuknattleik eða handknattleik sem dæmi. Eru handboltamörk notuð.
Fyrir nokkrum áratugum síðan voru handboltamörk notuð en þá voru leikirnir nokkuð frábrugðnir því sem er nú því þá voru battar hringinn í kringum völlinn. Boltinn fór því ekki eins auðveldlega úr leik og útsjónarsamir leikmenn gátu einnig nýtt sér battana þegar á þurfti að halda.
Á þeim árum var gjarnan fjöldi áhorfenda á Íslandsmótinu innanhúss en keppt var í svo gott sem öllum aldursflokkum þegar best lét. Mótið tók síðar breytingum þar sem battarnir voru fjarlægðir og leikið var á stærri mörk.
Meðfylgjandi mynd tók Bjarni Eiríksson fyrir Morgunblaðið árið 1985. Á þessari skemmtilegu mynd kljást leikmenn sem voru býsna áberandi á Íslandsmótunum utanhúss sem innanhúss á níunda ártugnum og fram á þann tíunda. Þarna eigast við KR-ingurinn Sæbjörn Guðmundsson og Guðmundur Steinarsson í innanhússknattspyrnu.
Sæbjörn lék 154 leiki fyrir KR í efstu deild, er enn sá tíundi leikjahæsti í deildinni í sögu félagsins, og var í liði KR sem komst í bikarúrslitaleikinn árið 1989 en þá höfðu mörg ár liðið frá því þegar KR var í baráttunni um bikarinn.
Þar mættust hann og Guðmundur en Guðmundur varð fimm sinnum bikarmeistari með Fram. Varð hann Íslandsmeistari með tveimur liðum Fram og Víkingi. Guðmundur hefur komið sér kirfilega fyrir á listanum yfir marksæknustu menn Íslandsmótsins með 101 mark í 228 leikjum en þar er hann fjórði efstur frá upphafi. Lék hann 19 A-landsleiki og skoraði í þeim átta mörk.
Sæbjörn lék 2 A-landsleiki og skoraði tvö mörk. Alls lék hann fjóra leiki fyrir landslið Íslands og skoraði í þeim þrjú mörk. Tæplega státa margir af slíku meðaltali.