Aron Einar Gunnarsson skoraði þrennu fyrir íslenska landsliðið í knattspyrnu í sigri á Liechtenstein, 7:0, í Vaduz í Liechtenstein í undankeppni EM karla 2024. Er þetta stærsti sigur íslenska karlalandsliðsins í mótsleik frá upphafi.
Yfirburðir íslenska liðsins voru gífurlegir. Liðið setti tóninn snemma og heimamenn reyndu lítið að sækja. Strax á þriðju mínútu leiksins kom Davíð Kristján Ólafsson Íslandi yfir. Aron Einar Gunnarsson átti þá langa sendingu inn á teiginn og eftir misheppnaða hreinsun datt boltinn fyrir fætur Alfreðs Finnbogasonar. Hann lagði boltann til vinstri á Davíð sem kom á ferðinni, lét vaða og eftir viðkomu í varnarmanni fór boltinn í netið.
Ísland nánast einokaði boltann allan hálfleikinn en á 14. mínútu skoraði Alfreð mark, sem var þó dæmt af. Hann stjakaði örlítið við varnarmanni Liechtenstein áður en hann lagði boltann í netið og Jakob Kehlet, danskur dómari leiksins, dæmdi brot.
Á 38. mínútu tvöfaldaði svo Hákon Arnar Haraldsson forystu Íslands. Hann fékk þá langa sendingu frá Aroni Einari inn á teiginn, tók vel við boltanum og lagði hann svo snyrtilega í hornið. Virkilega smekklegt mark hjá Skagamanninum unga.
Skömmu síðar skoraði Hákon svo annað mark. Hann og Arnór Sigurðsson spiluðu þá frábærlega sín á milli áður en Hákon lagði boltann framhjá Benjamin Büchel, markverði heimamanna. Markið virtist fullkomlega löglegt en eftir að hafa skoðað það í VAR-skjánum, dæmdi Kehlet brot á Hákon þar sem hann steig örlítið á leikmann Liechtenstein á leið sinni inn í teiginn. Frekar ósanngjarn dómur en honum fékkst ekki breytt.
Hákon fékk svo líklega sitt besta færi í leiknum á 44. mínútu. Boltinn datt þá fyrir fætur hans í miðjum teignum í algjöru dauðafæri eftir smá vandræði í vörn Liechtenstein, en Büchel varði virkilega vel. Staðan í hálfeik var því 2:0, en forystan hefði hæglega getað verið talsvert meiri.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn alveg eins og þann fyrri, með marki. Á 48. mínútu tók Jón Dagur Þorsteinsson hornspyrnu frá hægri, á nærsvæðið, þar sem fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson mætti á ferðinni og stangaði boltann í netið. Var þetta þriðja landsliðsmark Arons í 101. leiknum.
Á 57. mínútu fékk Jón Dagur svo algjört dauðafæri eftir frábæra sókn íslenska liðsins. Hákon Arnar komst þá upp að endamörkum og lagði boltann út í teiginn, í hárrétt svæði, en Jón Dagur náði ekki að halda boltanum niðri og setti hann hátt yfir.
Aron Einar var svo sannarlega ekki hættur. Á 68. mínútu átti Jón Dagur aðra hornspyrnu frá hægri, beint á kollinn á Aroni sem stangaði boltann í netið frá sama stað og í fyrra markinu. Nánast endursýnt atvik en varnarleikur heimamanna var mjög langt frá því að vera til fyrirmyndar.
Á 73. mínútu gerðist svo það sem allir íslenskir stuðningsmenn vonuðust eftir. Brotið var á varamanninum Andra Lucasi Guðjohnsen innan vítateigs og vítaspyrna dæmd. Aron Einar fór að sjálfsögðu á punktinn, skoraði af fádæma öryggi og fullkomnaði þar með þrennu sína. Algjörlega magnaður leikur hjá fyrirliðanum sem bað um skiptingu strax eftir vítaspyrnuna, búinn að skora þrjú mörk og leggja upp eitt úr miðverðinum.
Þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma bætti svo Andri Lucas við sjötta marki Íslands. Jón Dagur átti þá fyrirgjöf frá vinstri sem Davíð Kristján rak tánna í, svo boltinn endaði hjá Andra á fjærstönginni, sem ýtti boltanum auðveldlega yfir línuna. Ekta framherjamark hjá Andra Lucasi.
Fjörið var þó ekki búið enn því á 87. mínútu skoraði annar varamaður, Mikael Egill Ellertsson, sjöunda mark Íslands. Enn var það Jón Dagur sem átti frábæra fyrirgjöf frá vinstri sem Mikael skallaði snyrtilega í netið. Var þetta fyrsta landsliðsmark Mikaels.
Stærsti sigur íslenska karlalandsliðsins í mótsleik því staðreynd og er Ísland nú með þrjú stig eftir tvo leiki, á toppi riðilsins. Portúgal og Bosnía eru þó einnig með þrjú stig en hafa leikið leik minna, og geta því komist upp fyrir Ísland í kvöld. Lúxemborg og Slóvakía eru svo í fjórða og fimmta sæti með eitt stig hvort og Liechtenstein rekur lestina án stiga.