„Nei því miður,“ sagði Bjarni Helgason, íþróttablaðamaður á mbl.is og Morgunblaðinu, í Ísland vaknar á K100 þegar hann var spurður að því hvort íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu væri á leið í lokakeppni Evrópumótsins 2024 sem fram fer í Þýskalandi næsta sumar.
Ísland hóf leik í undankeppni EM á fimmtudaginn var þegar liðið tapaði fyrir Bosníu, 0:3, í Zenica í J-riðli undankeppninnar.
Íslenska liðið vann svo 7:0-sigur gegn Liechtenstein í Vaduz í gær og er sem stendur í fjórða sæti riðilsins með þrjú stig, líkt og Bosnía og Slóvakía, en næsti leikur liðsins er gegn Slóvakíu á Laugardalsvelli þann 17. júní.
„Við erum bara ekki komnir þangað og mér finnst vanta meiri reynslu í þessa ungu gæja í þessum stærstu leikjum,“ sagði Bjarni.
„Það er geggjað fyrir þessa ungu stráka að fá Alfreð, Jóhann Berg, Aron Einar og Sverri Inga inn í þetta. Þeir kunna að vinna fótboltaleiki.
Það vantar hins vegar aðeins meira upp á,“ bætti Bjarni meðal annars við í samtali við K100 þegar rætt var um málefni karlalandsliðsins.