Ísland komið í átta liða úrslit á EM

Orri Steinn Óskarsson skoraði á 67. mínútu.
Orri Steinn Óskarsson skoraði á 67. mínútu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska U19 ára piltalandsliðið í knattspyrnu náði í kvöld þeim glæsilega árangri að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar 2023 með því að vinna Ungverjaland, 2:0, í lokaleik sínum í milliriðli EM í Burton-on-Trent á Englandi.

Orri Steinn Óskarsson skoraði sigurmarkið á 67. mínútu en fyrir lokaumferðina í kvöld var Ísland með fjögur stig og England þrjú, Tyrkland tvö og Ungverjaland eitt. Aðeins sigurliðið kemst í lokakeppnina sem fer fram á Möltu dagana 3. til 16. júlí.

Englendingar, sem töpuðu óvænt fyrir íslenska liðinu, 0:1, settu talsverða pressu á Ísland með því að komast í 2:0 gegn Tyrkjum í síðari hálfleiknum, áður en Orri Steinn skoraði markið mikilvæga sem kom Íslandi yfir.

Í lok uppbótartímans gulltryggði Hilmir Rafn Mikaelsson sigurinn, 2:0, og sæti á EM með marki eftir að Kristian Nökkvi Hlynsson skaut í varnarvegginn úr aukaspyrnu.

Ísland vann riðilinn með sjö stig, England fékk sex stig, Tyrkland tvö og Ungverjaland eitt.

Í lokakeppninni á Möltu leika auk Íslands og gestgjafanna lið Ítalíu, Portúgals, Spánar, Póllands, Noregs og annað hvort Grikkland eða Slóvakía. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert